Skýrsla stjórnar FEBG til aðalfundar 24. febrúar 2020

 

Ég býð ykkur öll hjartanlega velkomin til aðalfundar Félags eldri borgara í Garðabæ. Sérstaklega býð ég velkomna gesti fundarins sem eru Gunnar Einarsson, bæjarstjóri, Þórunn Hulda Sveinbjörnsdóttir, formaður Landssambands eldri borgara og Svanhildur Þengilsdóttir, forstöðumaður stuðnings- og öldrunarþjónustu bæjarins.

 

Áður en við göngum til starfa er við hæfi að við minnumst þeirra úr okkar hópi sem kvatt hafa þennan heim frá síðasta aðalfundi. Þeir eru því miður margir en sérstaklega vil ég biðja ykkur að minnast Helga K. Hjálmssonar, fyrrverandi formanns FEBG og LEB. Við minnumst þeirra allra með virðingu og þökk með því að rísa úr sætum.

 

Á síðasta aðalfundi félagsins, sem haldinn var þann 4. mars  2019 voru eftirtalin kjörin til stjórnar: formaður Stefanía Magnúsdóttir, aðrir í stjórn Sigurður Símonarson, Guðlaug Ingvarsdóttir, Hildigunnur Hlíðar og Kristín Árnadóttir. Til varastjórnar voru kjörin Sigurður B. Ásgeirsson, Kolbrún Thomas og Jón Gunnar Pálsson. Aðalstjórn skipti með sér verkum þannig að Sigurður gegnir starfi varaformanns, Guðlaug gjaldkera, Hildigunnur ritara og Kristín meðstjórnanda.

Öllu stjórnarfólki færi ég alúðarþakkir fyrir gott samstarf. Stjórnarfundir voru 11 á árinu og það fylgir slíkri stjórnarsetu oft töluvert amstur og umstang en auk bókaðra funda eru margir samráðsfundir og viðvik sem þarf að sinna, fundir og ráðstefnur sem þarf að sækja o.fl.

Undirbúningur fyrir skemmtanir og ferðalög taka sinn tíma líka.

Formaður hefur setið í kjaranefnd Landssambands eldri borgara en því miður hefur lítill árangur komið út úr mikilli vinnu þeirrar nefndar. Von er á árlegu blaði LEB en formaðurinn situr einnig í ritnefnd.

Málsóknarsjóður Gráa hersins hefur verið stofnaður af 33 félögum eldri borgara en tilgangur sjóðsins er að kosta málarekstur einstaklings eða einstaklinga gegn íslenska ríkinu fyrir dómstólum, þar sem látið verði reyna á gildandi ákvæði um skerðingar ellilífeyris og heimilisuppbótar almannatrygginga vegna annarra tekna ellilífeyristaka.

Stjórn FEBG samþykkti að leggja 100.000 kr í stofnframlag málsóknar- sjóðsins. Stofnféð, sem er rúmlega 1,2 milljónir má ekki nýta til reksturs á sjóðnum og er geymt á lokuðum reikningi. Búið er að leggja mikla vinnu í undirbúning, t.d. er komin heimasíða: Graiherinn.is og einnig er Facebook síða. Það eru vissulegar deildar meiningar um þetta mál innan eldriborgarasamfélagsins en e.t.v. er dómstólaleiðin sú eina rétta til að útkljá ágreininginn. Ljóst er að þetta verður fjárfrek aðgerð og eru framlög vel þegin. Allar upplýsingar liggja fyrir á heimsíðunni. Sú sem hér stendur er í varastjórn málsóknarsjóðsins

 

Að venju höfum við opna skrifstofu einu sinni í viku og skipti stjórnarfólk með sér viðverunni en auk þess hefur formaður mikla viðveru á skrifstofu félagsins.

 

Starfsfólki í Jónshúsi færi ég innilegar þakkir fyrir frábært samstarf. Öllum öðrum sem koma að starfi félagsins færi ég þakkir. Sérstaklega vil ég minnast á – og nú get ég ekki lengur sagt konurnar – því karlmaður hefur bæst í hópinn, sem stjórnar félagsvistinni. Innilegar þakkir færum við þeim fyrir þeirra  óeigingjarna starf.

Kvenfélagi Garðabæjar, Lionsklúbbi og Oddfellow þökkum við kærlega fyrir þeirra framlag í þágu eldri borgara.

 

Dagskrá félagsstarfsins hefur verið með líkum hætti og áður. Gönguklúbburinn eflist stöðugt og fólk lætur ekki veður eða vinda á sig fá og fer í göngu alla virka morgna kl 10 héðan frá Jónshúsi. Qi gong heldur alltaf velli en það fer fram í Sjálandsskóla tvisvar í viku og þar er Ástbjörn Egilsson, fyrrverandi formaður félagsins á heimavelli. Stólajóga er hér í Jónshúsi tvisvar í viku, Zumba er komið í salinn í Ísafold- einnig tvisvar í viku.  Línudansinn er kominn i danssalinn í Sjálandsskóla. Við hreinlega sprengdum af okkur salinn í Kirkjuhvoli. Á föstudögum er dansleikfimi sem hefur slegið heldur betur í gegn en hún fer fram í Sjálandsskóla.

Við í stjórninni erum sannfærð um að þessi viðbótarhreyfing við það sem bærinn býður okkur upp á eigi eftir að skila sér margfalt tilbaka í betri heilsu og meiri færni. Það sem skiptir höfuðmáli er að fólk hafi val um hvaða hreyfing henti því og fái bæði ánægju og gagn af því sem valið er.

 

Mikil aukning hefur verið í bridge og er þéttsetið hér í Jónshúsi á mánu- og miðvikudögum. Félagsvistin stendur alltaf sterkt og mjög góð aðsókn er í leikfimi, sundleikfimi og það sama má segja um alla þá viðburði sem félagið stendur fyrir svo sem fræðslufundi, skemmtanir og ferðalög, alls staðar er góð þátttaka. Við höldum enn í þá von að farið verði í samstarf við Dr. Janus Guðlaugsson eða álíka verkefni. Það er verkefni til að koma af stað aukinni hreyfingu eldri borgara í Garðabæ þar sem fylgst er með virkni og gerðar reglubundnar mælingar til að fylgjast með heilsufari þátttakenda. Það er staðreynd að rúmlega 98% af fjárveitingum ríkisins fara til viðgerða á því sem bilað er og skemmt í heilsufari fólks en innan við 2% er nýtt í fyrirbyggjandi viðhald. Þetta verkefni Janusar kallast þjálfunartengd heilsuefling og hefur gefist ótrúlega vel í Reykjanesbæ, Hafnarfirði og núta með leiðsögumannil Akureyrar en þar beið rm þetta m síðast í Mosfellsbæ.

 

S.l. vor var farið í dagsferð til Akureyrar og Mývatns. Flogið var til Akureyrar en þar beið rúta með leiðsögumanni. Skemmst er frá því að segja, að ferðin tókst mjög vel þrátt fyrir mikinn kulda og var þó kominn 6. júní. Reyndar hættum við við að hafa með nesti til að borða úti en fengum þess í stað dýrindis kjötsúpu og heimabakað brauð á Selhóteli en kvöldmatinn borðuðum við á Strikinu á Akureyri áður en við flugum heim í átt að Strikinu okkar.

Önnur innanlandsferð var Suðurstrandarferð en þá heimsóttum við Grindavík, Þorlákshöfn og Hveragerði. Vel heppnuð ferð og einstaklega vel tekið á móti okkur alls staðar en þó sérstaklega hjá eldri borgurum í Þorlákshöfn og þar heiðraði bæjarstjórinn þeirra okkur með þrumuræðu.

Til Varsjár var farið með Betri ferðum sem björguðu ferðinni okkar eftir fall Wowair. Ferðin var hin ánægjulegasta og Varsjá vel þess virði að heimsækja.

Í haust var farið í hálfsdags ferð um Garðabæinn. Bessastaðir heimsóttir og Urriðaholtsskóli og endað í kaffi í golfskála GKG. Bæjarstjórinn okkar var fararstjóri og leysti það vel af hendi.

 

Öldungaráð bæjarins er að festa sig í sessi en formaður þess er Almar Guðmundsson, bæjarfulltrúi. Það er mikilvægt að hafa aðgang inn í bæjarstjórn með málefni sem varða hag eldri borgara og því lofar þetta góðu.

 

Næst á dagskrá félagsins, fyrir utan það venjubundna, er ball þann 21. mars n.k. Við vorum með velheppnað ball í nóvember og loforð tekið af okkur að endurtaka leikinn. Vonumst við til að sjá sem flest ykkar þá enda verður Dansbandið með Pálmar Ólason í broddi fylkingar. Þeir vita alveg hvernig tónlist hentar okkur. Það er svo hollt að dansa fyrir utan hvað það er gaman að koma saman og gleðjast.

 

Það nýjasta í starfinu er það sem kallað er söngsalur en meiningin er að hafa óformlegan samsöng á föstudögum kl 11 hér í Jónshúsi. Búið er að panta söngbækur sem nefnast Rósin en Páll V. Sigurðsson safnaði saman söngvum fyrir heldri borgara og er hún notuð víða í söngstarfi þeirra.

Við vitum að einhver besta líkamsræktin er dans en það þarf líka að þjálfa raddböndin. Það er líka bara hægt að vera i góðu skapi þegar sungið er og það lengir líka lífið að vera hress og glaður,

 

Hjartans þakkir fyrir frábæra mætingu á þennan fund og megi starf eldri borgara og mannlíf allt í Garðabæ blómstra sem aldrei fyrr.