Fundargerð Aðalfundar FEBG 2020

Aðalfundur Félags eldri borgara í Garðabæ var haldinn í Jónshúsi mánudaginn 24.febrúar 2020 kl. 13.30.

Formaður félagsins,  Stefanía Magnúsdóttir,  setti fund og bauð félaga og gesti velkomna. Gestir fundarins voru   Þórunn Sveinbjörnsdóttir formaður Landsambands eldri borgara, Gunnar Einarsson, bæjarstjóri og Svanhildur Þengilsdóttir forstöðumaður stuðnings-og öldrunarþjónustu í Garðabæ.

Formaður lagði til að Sigurður R Símonarson tæki að sér fundarstjórn og var það samþykkt.

Fundarstjóri lagði til að Hildigunnur Hlíðar tæki að sér fundarritun og var það samþykkt.

Gengið var til aðalfundarstarfa:

  1. Skýrsla stjórnar.

Formaður flutti skýrslu stjórnar um starfsemi félagsins á liðnu starfsári.  Í upphafi erindisins minntist hún látinna félaga og bað viðstadda að votta þeim virðingu sína með því að rísa úr sætum.  Skýrsla stjórnar fylgir með fundargerðinni.

  1. Ársreikningar félagsins.

Gjaldkeri félagsins, Guðlaug Ingvarsdóttir, skýrði frá reikningum félagsins árið 2019.

Rekstrartekjur félagsins urðu kr. 5.073.817  á árinu og rekstrargjöld  kr. 4.621.261 og vaxtatekjur kr.182.657.  Hagnaður ársins var því kr. 635.213 .  Efnahagsreikningur félagsins sýnir eigið fé kr. 7.201.346.

  1. Fyrirspurnir og umræður urðu engar og voru skýrsla stjórnar og ársreikningarnir samþykkt samhljóða með lófaklappi.
  2. Kosningar.

Kosning formanns.  Stefanía Magnúsdóttir gefur kost á sér sem formaður og var því fagnað með lófataki.

Kosning annarra stjórnarmanna.  Núverandi stjórnarmenn gefa kost á sér til áframhaldandi setu í stjórn að undanskilinni Kristínu Árnadóttur.  Í stað Kristínar gefur Kolbrún Thomas kost á sér í aðalstjórn.  Var þetta samþykkt með lófataki.   Auk formanns sitja í aðalstjórn Sigurður .Símonarson varaformaður, Guðlaug Ingvarsdóttir gjaldkeri, Hildigunnur Hlíðar ritari og Kolbrún Thomas meðstjórnari.

Kosning varamanna.  Sigurður B. Ásgeirsson, Jón Gunnar Pálsson  og lagt var til að Laufey Jóhannsdóttir kæmi í stað Kolbrúnar.  Öll voru samþykkt með lófataki.

Kosning skoðunarmanna reikninga.  Fram kom tillaga um að núverandi skoðunarmenn, Daði Guðmundsson og Gunnar Gunnlaugsson yrðu endurkosnir og Ástbjörn Egilsson til vara.     Var það samþykkt með lófataki.

  1. Árgjald.

Á aðalfundi 2019 var árgjald hækkað úr kr. 2000 í kr. 2500 og var tillaga stjórnar að það yrði óbreytt.  Það var samþykkt án umræðu.

  1. Önnur mál.

Þórunn Sveinbjörnsdóttir formaður Landssambands eldri borgara, LEB, bað um orðið og ræddi um einmanaleika, heilsueflingu og velferðarmál eldri borgara.  Lýsti hún hvernig Danir væru að leysa þessi mál. LEB sækir um styrki frá heilbrigðisráðuneyti til gerðar fræðsluefnis í forvarnarskyni gegn einmanaleika og félagslegri einangrun. Um 9.500 íslendingar búa einir.  Hvatti hún félaga til sjálfboðaliðastarfa með t.d.  að gerast heimsóknarvinir. Hún talaði um aðgengismál og mætti auka litagleðina í hjálpartækjum. Hún kom einnig inn á heilsueflingu Janusar Guðlaugssonar og leiðréttingu á kjörum aldraðra.  Lýsti hún ánægju sinni yfir fjölda fundargesta og hvatti til þátttöku í félagsmálum, það væri eins og vítamín.

Gunnar Einarsson bað því næst um orðið og kvað áhugavert að heyra um sjáfboðaliðastarfið og einmanaleika eldri borgara.  Tók hann dæmi um slík mál og úrræði frá Bandaríkjunum og Bretlandi. Viðurkenndi að stækka þyrfti Jónshús, en stóru málin í bæjarfélaginu væru mörg, svo sem gatnakerfið, fjölnota íþróttahúsið, sem kæmi hvorutveggja til góða fyrir eldri borgara sem aðra og skipulagning Vífilstaðalands og Vetrarmýrar.

Svanhildur Þengilsdóttir forstöðumaður stuðnings- og öldrunarþjónustu Garðabæjar tók því næst til máls og vill efla þjónustu við eldri borgara í samstarfi við Öldungarráð bæjarins.  Efla þarf heilsu- og forvarnir.  Komnar eru nýjar reglur um félagslega heimaþjónustu og stuðningsþjónustu.  Ný verkefni við velferðartækni og velferðartæki.  Aukin dagþjónusta í Ísafold o.fl.  Skoða má Stefnu í málefnum eldri borgara í Garðabæ 2016-2026 á netinu.

 

Fundarstjóri þakkaði fyrir erindi gesta og fundarmönnum góðan fund og afhenti formanni fundinn.

Formaður þakkaði fundarstjóra fyrir góða fundarstjórn og gestum fundarins fyrir þeirra orð.  Hún þakkaði fundarmönnum góða fundarsetu og bauð viðstöddum upp á rjómabollur, kleinur og flatkökur með kaffinu í tilefni dagsins.

Fundi slitið kl 14:20

Hildigunnur Hlíðar, fundarritari