Aðalfundur 4.mars 2019

Aðalfundur Félags eldri borgara í Garðabæ var haldinn í Jónshúsi mánudaginn 4.mars 2019 kl. 13.30.

Formaður félagsins,  Stefanía Magnúsdóttir,  setti fund og bauð félaga og gesti velkomna. Gestir fundarins voru Ingibjörg Valgeirsdóttir, forstöðumaður félagsþjónustu Garðabæjar og Þórunn Sveinbjörnsdóttir formaður Landsambands eldri borgara. Gunnar Einarsson, bæjarstjóri, sem var upptekin við önnur störf, bað fyrir kveðju og kvaðst mundi koma síðar ef hann hefði möguleika á.

Formaður lagði til að Laufey Jóhannsdóttir yrði fundarstjóri og var það samþykkt með lófataki.

Laufey tók þá við stjórn fundarins og lagði til að Sigurður Símonarson yrði valinn sem fundarritari og var það samþykkt.

Því næst var gengið til aðalfundarstarfa.

  1. Skýrsla stjórnar.

Formaður kynnti skýrslu stjórnar um starfsemi félagsins á liðnu starfsári. Í upphafi ræðu sinnar minntist hún látinna félaga og bað viðstadda að votta þeim virðingu sína með því að rísa úr sætum. Fram kom í skýrslunni að starfsemin hafi verið með meira móti á árinu og þátttaka félaga í félagsstarfinu með ágætum. Skýrsla stjórnar, þar sem nánar er greint frá einstökum viðburðum, fylgir með fundargerðinni.

  1. Ársreikningar félagsins.

Gjaldkeri félagsins, Guðlaug Ingvarsdóttir, lagði fram áritaða reikninga félagsins fyrir árið 2018.

Fram kom í máli hennar að rekstrartekjur félagsins urðu 3 597 000 kr. og rekstrargjöld kr.        4 381 000.  Vaxtatekjur urðu kr. 208 293 og varð því rekstrartap samtals kr. 576 519 kr.            Í því samhengi ber þó að geta þess að kostnaður vegna prentunar félagsskírteina til þriggja ára er allur færður á þetta reikningsár. Þá ber og að geta þess og kostnaður vegna leiðbeinenda í félagsstarfi,  sem er félögum að kostnaðarlausu,  hefur aukist verulega, bæði vegna fjölgunar tækifæra til félagsstarfsins og þátttakenda.

Efnahagsreikningur félagsins sýnir eigið fé kr. 6 558 387 að frádregnum ógreiddum reikningum um áramót.

  1. Umræður.

Fundarstjóri opnaði fyrir umræður um skýrslu stjórnar og ársreikningana.

Guðmar Magnússon spurðist fyrir um hvenær ákvörðun um stjórnarlaun hefðu verið tekin.

Formaður svaraði því til að ákvörðunin hefði verið tekin á stjórnarfundi og væri ástæðan aukin umsvif vinnu á skrifstofu m.a. vegna prentunar og útgáfu félagsskírteina sem nú fara alfarið fram á skrifstofunni. Upplýsti hún að þóknun til formanns væri kr. 50 000 á mánuði og til gjaldkera kr. 20 000.

Björg Þórðardóttir þakkaði formanni og stjórninni fyrir mikið framlag í þágu félagsins sagði að greiðslur til stjórnarmanna væru langt í frá að vera of miklar og mættu gjarnan aukast miðað við vinnuframlagið sem þau leggja að mörkum.

Skýrsla stjórnar var síðan samþykkt samhljóða og ársreikningarnir með þorra atkvæða, 1 var á móti.

  1. Árgjald félagsins.

Fram komu 2 tillögur er vörðuðu árgjaldið. Stjórnin lagði til 500 kr. hækkun í kr. 2 500 og Guðmar Magnússon lagði til óbreytt árgjald kr. 2 000.

Atkvæði voru greidd um tillögurnar og hlaut tillaga Guðmars 39 atkvæði og tillaga stjórnar 51 atkvæði.

Félagsgjaldið fyrir komandi ár var því samþykkt kr. 2 500.

  1. Kosningar
  2. Kosning formanns. Stefanía Magnúsdóttir gefur kost á sér til áframhaldandi formennsku í félaginu og var því fagnað með lófataki.
  3. Kosning annarra stjórnarmanna. Fram kom að núverandi stjórnarmenn gefa kost á sér til stjórnarsetu að undanskyldum Sigursteini Hjartarsyni, sem baðst undan því vegna veikinda. Í hans stað leggur stjórnin til að Hildigunnur Hlíðar, er áður sat í varastjórn taki sæti hans. Var það samþykkt með lófataki. Eftirtaldir aðilar sitja því í aðalstjórn félagsins næsta ár auk formanns: Sigurður Símonarson, Guðlaug Ingvarsdóttir, Kristín Árnadóttir og Hildigunnur Hlíðar.
  4. Kosning varastjórnar. Kolbrún Thomas og Sigurður B. Ásgeirsson gefa kost á sér áfram og þá leggur stjórnin til að Jón Gunnar Pálsson komi nýr inn í varastjórnina. Var það samþykkt með lófataki.
  5. Kosning skoðunarmanna reikninga. Fram kom tillaga um að núverandi skoðunarmenn, Daði Guðmundsson og Gunnar Gunnlaugsson yrðu endurkjörnir og sömuleiðis Ástbjörn Egilsson sem varamaður þeirra. Var það samþykkt með lófataki.

 

  1. Önnur mál.
  2. Ingibjörg Valgeirsdóttir greindi frá því að 15.mars n.k. myndi hún láta af störfum sem yfirmaður öldrunarþjónustu Garðabæjar og hasla sér völl á nýjum vettvangi. Þakkaði hún öllu samstarfsfólki og eldri borgurum í Garðabæ ánægjulegt samstarf og kvaðst þess fullviss að starfið framundan væri í góðum höndum hjá því starfsfólki er tæki við og með áframhaldandi góðri samvinnu við Félag eldri borgara. Óskaði hún eftirmanni sínum farsældar í starfi.
  3. Þórunn Sveinbjörnsdóttir, formaður Landsambands eldri borgara greindi í stuttu máli frá þeim viðfangsefnum er Landsambandið stendur fyrir og þeim helstu þýðingarmestu málum sem fram undan eru til hagsbóta fyrir eldri borgara.

Að þessu loknu tók Laufey, fundarstjóri til máls og þakkaði fundarmönnum ánægjulegan fund. Afhenti hún síðan fundinn nýkjörnum formanni.

Stefanía þakkaði fundarstjóra fyrir góða fundarstjórn og gestum fundarins fyrir þeirra orð. Að því loknu las ún upp tillögu að

 

 

 

Ályktun aðalfundar félags eldri borgara í Garðabæ frá 4.mars 2019

„Aðalfundur Félags eldri borgara í Garðabæ, haldinn þann 4.mars 2019 mótmælir harðlega þeim fáránlegu skerðingum sem viðgangast í almannatryggingakerfinu gagnvart lífeyri úr lífeyrissjóðum. Fundurinn skorar á stjórnvöld að endurskoða þessar skerðingar og færa til betri og réttlátari vegar.“

Tillagan var síðan borin upp og samþykkt samhljóða með lófataki.

Formaður þakkaði síðan fundarmönnum góða fundarsetu og bauð viðstöddum upp á rjómabollur með kaffinu í tilefni dagsins.

 

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 14.30

Sigurður Símonarson, fundarritari.