Skýrsla stjórnar FEBG til aðalfundar 4. mars 2019

 

Ég býð ykkur öll hjartanlega velkomin til aðalfundar Félags eldri borgara í Garðabæ. Sérstaklega býð ég velkomna gesti fundarins sem eru Gunnar Einarsson, bæjarstjóri, Þórunn Hulda Sveinbjörnsdóttir, formaður Landssambands eldri borgara og Ingibjörg Valgeirsdóttir, framkvæmdastjóri málefna eldri borgara hér í bæ.

 

Áður en við göngum til starfa er við hæfi að við minnumst þeirra úr okkar hópi sem kvatt hafa þennan heim á liðnu ári. Þeir eru því miður margir og við minnumst þeirra með virðingu og þökk með því að rísa úr sætum.

 

Á síðasta aðalfundi félagsins, sem haldinn var þann 5. mars  2018 voru eftirtalin kjörin til stjórnar: formaður Stefanía Magnúsdóttir, aðrir í stjórn Sigurður Símonarson, Guðlaug Ingvarsdóttir, Sigursteinn Hjartarson og Kristín Árnadóttir. Til varastjórnar voru kjörin Sigurður B. Ásgeirsson, Kolbrún Thomas og Hildigunnr Hlíðar. Aðalstjórn skipti með sér verkum þannig að Sigurður gegnir starfi varaformanns, Guðlaug gjaldkera, Sigursteinn ritara og Kristín meðstjórnanda.

Öllu stjórnarfólki færi ég alúðarþakkir fyrir gott samstarf. Stjórnarfundir voru 13 á árinu og það fylgir slíkri stjórnarsetu oft töluvert amstur og umstang en auk bókaðra funda eru margir samráðsfundir og viðvik sem þarf að sinna, fundir og ráðstefnur sem þarf að sækja o.fl.

Undirbúningur fyrir skemmtanir og ferðalög taka sinn tíma líka. Formaður hefur setið í kjaranefnd Landssambands eldri borgara en því miður hefur lítill árangur komið út úr mikilli vinnu þeirrar nefndar. Von er á afmælisblaði LEB sem á 30 ára afmæli í ár og situr formaðurinn einnig í ritnefnd.

 

Að venju höfum við opna skrifstofu einu sinni í viku og skipti stjórnarfólk með sér viðverunni en auk þess hefur formaður mikla viðveru á skrifstofu félagsins enda var s.l. ár einstaklega annasamt enda hafa verið gefið út u.þ.b. 1500 félagsskírteini en öll vinna við þau fer fram á skrifstofunni okkar. Sérstaklega langar mig að þakka félögum í gönguklúbbnum okkar því þau báru út obbann af skírteinunum og spöruðu félaginu heilmikil burðargjöld.

Skírteinin voru gefin út til þriggja ára og ætti því kostnaðurinn við þau að dreifast á þrjú ár en við höfum þó fært allan kostnaðinn á árið 2018.

Það hefur orðið mikil fjölgun í félaginu og sem dæmi hafa bæst við rúmlega 60 félagar á síðustu tveim mánuðum. Ég má til með að fara með vísu um umsókn í félagið því það er í fyrsta sinn sem ég sé slíka umsókn:

 

Ýtist sál mín elli nær

aldurs þaninn strengur.

Óskin mín um aðild fær

ekki beðið lengur.

 

Starfsfólki í Jónshúsi færi ég innilegar þakkir fyrir frábært samstarf. Öllum öðrum sem koma að starfi félagsins og félagsstarfsins færi ég þakkir. Sérstaklega vil ég minnast á konurnar, sem stjórna félagsvistinni fyrir þeirra óeigingjarna starf.

Kvenfélagi Garðabæjar, Lionsklúbbi og Oddfellow þökkum við kærlega fyrir þeirra framlag í þágu eldri borgara.

 

Dagskrá félagsstarfsins hefur verið með líkum hætti og áður. Gönguklúbburinn eflist stöðugt og fólk lætur ekki veður eða vinda á sig fá og fer í göngu alla virka morgna kl 10 héðan frá Jónshúsi. Qi gong heldur alltaf velli en það fer fram í Sjálandsskóla og þar er Ástbjörn Egilsson, fyrrverandi formaður félagsins á heimavelli. Stólajóga er hér í Jónshúsi tvisvar í viku, Zumba er í Kirkjuhvoli – einnig tvisvar í viku.  Við vorum svo heppin að fá Óla Geir til að kenna línudans tvo tíma í viku – einnig í Kirkjuhvoli. Það  er metaðsókn þar og reyndar í allt sem við bjóðum upp á. Á föstudögum bættum við inn í hreyfinguna það sem kallast dansleikfimi sem hefur slegið hefur heldur betur í gegn en hún fer fram í Sjálandsskóla.

Við í stjórninni erum sannfærð um að þessi viðbótar-hreyfing við það sem bærinn býður upp á eigi eftir að skila sér margfalt í betri heilsu og meiri færni. Það sem skiptir höfuðmáli er að fólk hafi val um hvaða hreyfing henti og fái bæði ánægju og gagn af því sem valið er.

 

Í febrúar var tölvunámskeið í Jónshúsi sem Einar Þór Ísfjörð bauð félögum upp á. Mikil ánægja ríkti með námskeiðið sem var 12 klst. Von er á framhaldsnámskeiði og vonandi verður jafn vel af því látið.

 

Við höfum samið við reyndan tölvukennara, Þórunni Óskarsdóttur um að vera með aðstoð við félaga tvisvar í viku. Hún mun hafa aðsetur hér í Jónshúsi og fólk getur pantað tíma, 30 mínútur í senn og komið með spjaldtölvur eða síma og fengið aðstoð þar sem á bjátar. Það þarf að gefa upp tegund tækjar þegar pantað er en ég held að margir séu með síma sem þeir kunna lítið á. Við höfum ákveðið að byrja á þessu tilraunaverkefni á þriðju- og fimmtudagsmorgnum kl. 11 – fyrsti tíminn verður fimmtudaginn 7. mars.

 

Í mars verður bridgenámskeið en mikil aukning hefur verið í bridge og er þéttsetið hér í Jónshúsi á mánu- og miðvikudögum. Félagsvistin stendur alltaf sterkt og mjög góð aðsókn er í leikfimi, sundleikfimi og það sama má segja um alla viðburði sem félagið stendur fyrir svo sem fræðslufundi, skemmtanir og ferðalög, alls staðar er góð þátttaka.

 

25 ára afmælis félagsins var fagnað með veislu í Sjálandsskóla í júní s.l. Þar var glatt á hjalla eins og ætíð er við komum saman. Örn Árnason var óborganlegur eins og alltaf.

Von okkar í stjórninni var að við gætum farið í samstarf við Dr. Janus Guðlaugsson og bæinn okkar. Það samstarf er verkefni til að koma af stað aukinni hreyfingu eldri borgara í Garðabæ þar sem fylgst er með virkni og gerðar reglubundnar mælingar til að fylgjast með heilsufari þátttakenda. Það er staðreynd að 98,4% af fjárveitingum ríkisins fara til viðgerða á því sem bilað er og skemmt í heilsufari fólks en aðeins 1,6% er nýtt í fyrirbyggjandi viðhald. Þetta verkefni Janusar kallast þjálfunartengd heilsuefling og hefur gefist ótrúlega vel í Reykjanesbæ og Hafnarfirði. Boltinn er núna hjá bæjarstjórn Garðabæjar en við munum reyna að þrýsta á að þessi samskipti verði að veruleika hér í bæ.

 

S.l. vor var farið í dagsferð til Vestmannaeyja og önnur ferð var farin í Stykkishólm í ágústlok og tókust báðar ferðirnar mjög vel. Þá var farið í hálfsdagsferð um Reykjavík í október og var gerður góður rómur að þeirri ferð.

Við efndum til utanlandsferðar til Þýskalands í haust sem leið. Fórum í Svartaskóg með um 50 manna hóp á vegum Gamanferða. Ferðin tókst í alla  staði vel.

 

Í ár voru tvær utanlandsferðir ráðgerðar – sú fyrri í maí til Englands og áætlað að heimsækja Brighton og sú síðari til höfuðborgar Póllands, þ.e. Varsjár. Brighton sló ekki í gegn og er búið að afskrifa þá ferð en biðlisti er í ferðina til Varsjár og verði hann langur er spurning um aðra ferð þangað.

Önnur ferð var kynnt á sama tíma og Brighton ferðin en það er ferð í maí með Lóló og Jenný til Spánar. Sú ferð er alfarið á vegum Úrvals Útsýnar en það eru bara örfá sæti eftir í hana frétti ég svo hún hefur verið miklu álitlegri.

Við erum búin að bóka 40 manna hóp til Akureyrar í 6. júní – ætlum að fljúga þangað og fara í rútuferð að Mývatni og fljúga heim að kvöldi frá Akureyri. Það er einnig kominn biðlisti í þá ferð. Í ágústlok er fyrirhuguð ferð til Grindavíkur, Þorlákshafnar og Hveragerðis – sú ferð verður auglýst síðar.

 

 

Öldungaráð hefur verið sett á laggirnar í Garðabæ en fastanefndin um málefni eldri borgara var lögð niður s.l. vor. Þetta er gert á grundvelli laga um félagsþjónustu sveitarfélaga. Í ráðinu eru 3 fulltrúar skipaðir af bæjarstjórn eftir kosningar, 3 fulltrúar koma frá félögum eldri borgara og eigum við tvo fulltrúa þar en Félag eldri borgara á Álftanesi einn. Einn fulltrúi er skipaður af heilsugæslunni.

Formaður ráðsins er Almar Guðmundsson, bæjarfulltrúi. Við vonum auðvitað að þetta verði okkur öllum til heilla en það verður að koma í ljós.

 

Næst á dagskrá félagsins, fyrir utan það venjubundna, er ball þann 23. mars n.k. Við vorum með svo velheppnað ball í nóvember að loforð var tekið af okkur að endurtaka leikinn. Vonumst við til að sjá sem flest ykkar þá enda verður Dansbandið með Pálmar Ólason í broddi fylkingar. Það er svo hollt að dansa fyrir utan hvað það er gaman.

 

Fallegur bæklingur með stefnu Garðabæjar í málefnum eldri borgara kom út á síðasta ári og fylgdi aðgerðaáætlun en fyrirhugað var að veita 1.320.000 kr á síðasta ári í þá áætlun og var upplýsingabæklingur um alla þjónustu við eldri borgara hér í bæ gefinn út. Bæklingar þessir eru fáanlegir hér og hvet ég alla til að kynna sér efni þeirra.

 

Hjartans þakkir fyrir frábæra mætingu á þennan fund og megi starf eldri borgara og mannlíf allt í Garðabæ blómstra sem aldrei fyrr.